Catherine Louisa Pirkis

Þó svo að fáir þekki Catherine Louisu Pirkis í dag var hún á sínum tíma (1877–1894) með vinsælli höfundum afþreyingarbókmennta og sögur hennar um kvenspæjarann Loveday Brooke eru enn í dag gefnar út þó að það fari ekki hátt. 

The Experiences of Loveday Brooke, Lady DetectiveVilja margir meina að með sköpun sinni á Loveday Brooke hafi Pirkis í raun brotið blað í ritun sakamálasagna, og að þar hafi sjónarhorn kvenna í fyrsta sinn fengið að njóta sín. Fram að því höfðu kvenspæjarar verið „stereótýpur“ sem konur hafi almennt ekki fundið neina samkennd með. 

Pirkis fæddist árið 1841 og er ekki mikið um hana vitað framan af, en fyrsta bókin hennar kom út árið 1877.  Voru fyrstu sögur hennar rómantískar ástarsögur og áttu þær nokkrum vinsældum að fagna.  Skrifaði hún jöfnum höndum fram til ársins 1894, en þá hætti hún skyndilega að skrifa á hátindi ferils síns og ákvað að einbeita sér að góðgerðamálum og ýmsum baráttumálum sem lágu henni á hjarta. Hún barðist t.a.m. ásamt manni sínum hatrammlega  gegn því að dýr væru notuð í tilraunaskyni í læknavísindum. 

Sögur hennar um kvenspæjarann Loveday Brooke birtust fyrst í tímaritinu  Ludgate Magazine á árunum 1893 og 1894, en síðasta sagan Missing birtist ekki á prenti fyrr en eftir lát hennar. Eins og áður sagði var Loveday Brooke ólík öllum kvenspæjurum sem þá þekktust og raunar algjör andstæða þeirra. 

Fram að því höfðu allir kvenspæjarar verið forkunnar fríðar yngismeyjar sem stjórnuðust af óheftum tilfinningum og höfðu ráð undir hverju rifi, en Loveday Brooke var skrifuð meira í anda karlspæjara frá þeim tíma. Lýsing höfundarins á spæjaranum í fyrstu sögunni sýnir þennan mun á margan hátt vel: „Hún var ekki hávaxin, hún var ekki lágvaxin, hún var ekki dökk yfirlitum né heldur var hún ljós; hún var hvorki falleg eða ljót; hún var næsta litlaus með öllu.“ Hér er augljóslega ekki verið að hampa útliti hetjunnar, áherslan á greinilega að vera á öðrum eiginleikum. Enda er það svo að Brooke beitir rökleiðslu við úrlausn viðfangsefnanna, en ekki kvenlegu innsæi sínu.  

Þeir sem gerst til þekkja vilja meina að ákveðinn skyldleika megi finna með Loveday Brooke og Sherlock Holmes. Þó svo að Arthur Conan Doyle hafi kynnt Holmes til sögunnar 1897, eða sex árum fyrr en Pirkis sendi frá sér fyrstu söguna um Loveday hallast sumir að því að Doyle hafi í nokkrum tilvikum leitað í smiðju Pirkis í sögum sínum. Má finna sameiginlega þræði í sögum þeirra frá sama tíma og verður seint hægt að skera úr um það hvort þeirra hafði áhrif á hitt, enda skiptir það kannski minnsta máli. 

Það var skaði fyrir lesendur hennar að Pirkis skyldi ekki sjá sér fært að skrifa fleiri sögur um Loveday Brooke samhliða öðrum viðfangsefnum, en sögur hennar urðu í allt ekki nema sjö, en þær eru:  The Black Bag Left on a Doorstep, A Princess's VengeanceDrawn DaggersThe Ghost of Fountain Lane, The Murder at Troyte's Hill, The Redhill Sisterhood og sú síðasta Missing.